28.12.2007 | 16:40
Yndisleg jól
Jólin eru búin að vera alveg yndisleg hjá okkur fjölskyldunni. Mamma, pabbi, bróðir minn og sonur hans borðuðu vel af fiskinum sem ég bauð þeim upp á á Þorláksmessu og voru drengirnir 2 á þessu heimili mjög glaðir að fá þau í heimsókn. Á aðfangadag þurfti unnustinn að vinna fram á hádegi þannig að restin af fjölskyldunni tók því bara rólega og vorum á náttfötunum fram eftir morgni. Litli prins spurði nokkrum sinnum hvort það væri ekki leikskóli því honum fannst eitthvað skrýtið að fara ekki þangað (vanafastur ungur herramaður ). Síðan fóru auðvitað allir í jólabaðið og nutu þess að vera í rólegheitunum. Eftir að hafa borðað á sig gat var farið í pakkaflóðið sem beið eftir drengjunum undir jólatréinu. Fengu þeir margar fallegar gjafir og þökkum við kærlega fyrir þær. Litli prins var mest ánægður með jólagjöfina frá bróðir sínum en hann gaf honum Bósa ljósár. Unglingnum er alveg sama um gjafir og undi sér sæll og glaður með pakkaböndin og glotti af æsingnum í bróðir sínum. Bara gaman af þeim. Auðvitað fengum við hjónaleysin fullt af gjöfum og er ég mjög ánægð með þær allar, en þær gjafir sem mér finnst mest vænt um eru þessar þrjár
Unglingurinn gerði kertið og skálina og litli prins gerði dagatalið. Mér finnst alltaf svo gaman af gjöfunum sem börn gera sjálf.
Á jóladag fórum við í mat til mömmu og pabba. Ég fór með mitt hangikjöt með og síðan var boðið upp á hlaðborð. Systir mín, mágur og dóttir þeirra komu líka sem og litli púkinn hans bróðir míns. Ef ykkur langar að sjá mynd af matarborðinu endilega kíkið á bloggið hennar litlu syss (þið sem ekki vitið þá er það hún www.bryndisr.blog.is).
Núna er unglingurinn í aukavistun í sambýlinu og litli prins leikur sér af sjóræningjaskipinu sem hann fékk í jólagjöf frá foreldrunum. Reglulega heyri ég kallað ruplum og hænum (ekki ruplum og rænum ). Unglingurinn kemur síðan aftur heim á gamlársdagmorgun og er ég strax farin að hlakka til að fá hann heim.
Skjáumst vonandi fyrir áramót.
Knús og kram
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.