26.1.2008 | 10:33
Hitt og þetta
Í gærkvöldi hittumst við nokkrar frænkurnar til að kveðja eina sem er að fara að flytja til Danmerkur. Var þetta mjög rólegur og fínn tími. Vorum svo heppnar að það var kynning á rauðvíni á staðnum og frítt að drekka fyrir þá sem það vildu og ítalskir ostar, parmaskinka og annað ítalskt gúmmulaði í boði fyrir alla. Það var voða næs að hitta þær og gaman að hitta eina sem ég hef ekki séð í nokkur ár þar sem hún er við nám í Danmörku. Mér finnst svolítið fyndið að hugsa til þess að þessi tilvonandi læknir var einu sinni lítil mús sem ég passaði heilt sumar. Hún var yndisleg þá og er enn yndisleg. Mér finnst ég ekki vera það gömul að krakkar sem ég var að passa geta verið læknarnir mínir eftir 2 ár. Ótrúlegt. Annars lítð að frétta. Búin að vera að lesa í skólabókinni og lesa yfir glósur sem kennarinn sendi. Ég er enn voða spennt fyrir þessu en samt kom upp mín vanalega tilfinning um að ég geti ekki hlutinn. Ég sé ekki nægilega greind til að geta hlutinn. Sé á einhvern hátt einskis verð. Ég veit það alveg að þetta er ekki satt en samt er ég með þessa niðurrifs rödd alltaf til staðar. En nóg um það. Ég hef góðan stuðning frá unnustanum og foreldrum mínum og á yndislega púka sem ég geri allt fyrir að eigi yndislegan tíma.
Best að fara að læra aðeins meira því það er krossapróf í næstu viku. Erum að læra um blóðið núna og er alveg ótrúlega margt sem maður vissi ekki um þennan lífssafa okkar.
Farið vel með ykkur. Knús og kram
22.1.2008 | 21:34
Andleysi.
Er hálf andlaus þessa stundina. Skólinn byrjar hjá mér á fimmtudaginn og er ég orðinn frekar spennt fyrir því. Annars mest lítið að frétta.
Þangað til næst. Farið vel með ykkur.
Knús og kram.
18.1.2008 | 19:19
Hann er bara æði.
Mamma kenndi mér að ef eitthvað fer miður lætur þú viðkomandi vita en ef gott sé gert áttu að láta alla vita. Og auðvitað fer ég eftir því.
Í vikunni kom Unglingurinn minn heim með geisladisk sem ég vissi að hann átti ekki. Ég setti hann aftur ofan í tösku og skrifaði í samskiptabókina hans að hann ætti ekki svona disk og bað þau um að koma honum í réttar hendur. Diskurinn kom aftur og skilaboð í bókinni um það að unglingurinn ætti þennan disk. Flytjandinn hafði komið í dagvistunina og spilað fyrir krakkana og gefið þeim eintak af disknum sem var gefin út fyrir jólin. Þetta var hann Einar Ágúst fyrrum Skítamóralsdrengur. Mér finnst hann eiga heiður skilið að gera þetta. Þetta kom svo óvænt þar sem ekkert hefur verið sagt um þetta í blöðum eða fréttum og finnst mér það sýna að hann er að gera þetta af áhuga en ekki sem auglýsingu. Einstaklingar eins og unglingurinn minn skipta máli. Það er ekki frásögum færandi að unglingurinn er búin að vera að hlusta á diskinn með sælubros á vör og annað slagið heyrir maður hlátur og gleðihljóð. Einar Ágúst, þú ert ÆÐI
Svo maður haldi áfram með sögur af unglingum. Í gær þegar ég var að undirbúa kvöldmatinn var hann alltaf að koma inn í eldhús og athuga hvernig gegni. Í eitt skiptið tók ég hann til min og með minni aðstoð skar hann niður bjúguna sem var að fara í eggjakökuna. Hann var alveg rosalega áhugasamur fyrst en þegar bitinn sem skorin var var farin að minnka hætti áhugin á matargerðinni og hnífnum var sleppt. Greinilegt að hann er meira hrifin að borða matinn heldur en að undirbúa hann. Kannski að hann fari að sýna mér meiri þolinmæði á meðan ég elda héðan í frá (maður má láta sig dreyma)
Fór í dag og keypti bókina fyrir áfangann sem ég skráði mig í og er ég búin að vera að fletta henni bak og fyrir. Hlakka svo til að geta sökkt mér í innihaldið og notið þess að gera eitthvað bara fyrir mig. Þetta er bara spennandi. Kannski að maður láti verða af því að fara í meira nám, hver veit
16.1.2008 | 21:31
Ég ákvað....
... að gera eitthvað fyrir sjálfa mig á þessu ári. Fyrsta sem ég gerði var að skrá mig í áfanga sem mig er búið að langa að fara í síðan ég var að taka stúdentinn. Ákvað að taka hann í fjarnámi þannig að ég get gert þetta á mínum tíma. Þegar ég sagði stelpunum sem ég er að vinna með að ég hafði tekið þennan áfanga spurðu þær mig að því hvort ég væri léttgeggjuð þar sem fólk tekur þennan áfanga ekki af áhuga heldur af þörf. Ég veit það ekki hann heillar mig bara rosalega mikið. Núna þarf ég bara að finna upp á fleiru sem ég get gert fyrir mig. Mikill vill meira.
Ég er búin að vera að hlægja að bílstjórunum núna í snjónum. Ég keyri um á litlum bíl (reyndar á góðum NELGDUM vetradekkjum) og ég kemst allt. Síðan hef ég verið að horfa á stærri bíla og alveg upp í jeppa vera að erfiða í fannferginu. Mér finnst þetta bara fyndið. Held að það skipti máli að maður hafi lært að keyra í snjó. Þar sem ég er út af landi (pakk) þá hefur maður nú lent í öllu verra en þessu og sjaldan þurft aðstoðar við. C'est la vie.
Þangað til næst. Knús og kram
13.1.2008 | 11:17
Fyrsta bloggfærsla ársins
loksins loksins er ég komin upp úr blogglægðinni. Veit ekki hvað gerðist en ég hef bara nánast ekki sest niður við tölvo í langan tíma nema til að kíkja aðeins einn bloggvinahring. Gæti verið af því að unnustinn er búin að vera að gera teikningar vegna hússins sem við ætlum að fara að byggja.
Árið byrjaði vel hjá okkur. Yndislegt gamlárskvöld með foreldrum mínum , systir, mági og frænku. Bara æðislegt. Litli prins var reyndar ekkert mikið hrifin að skjóta upp flugeldum en fannst þeir voða flottir ef hann þurfti ekki að hlusta á hávaðann sem kemur frá þeim. Unglingurinn aftur á móti var í mesta stuðinu ef hann heyrði sprengingarnar. Nýjársdagur tekinn rólega og síðan hefur maður nánast bara verið að vinna og sinna prinsunum. Á síðustu helgi fórum við á jólaball hjá Vildarbörnum og var það mikið fjör. Maður er orðinn miklu spenntari fyrir ferðinni eftir að hafa skoðað myndir úr einni slíkri ferð. Unglingurinn skemmti sér konunglega við að dansa í kringum jólatréið en litli prins er ekkert hrifin af svoleiðis ( svolítið líkur pabba sínum með það ). Þegar við komum heim ákváðum við að skjóta upp smá af flugeldum sem var mikið fjör nema að litli prins var ekki hrifin af hávaðanum. Fékk reyndar eyrnahlífar en það var ekki nóg. Það er miklu betra að vera inni sagði hann.
Litli prins fékk vin sinn í heimsókn á fimmtudaginn. Þetta er strákur sem hann kynntist í leikskólanum þegar hann byrjaði og urðu þeir strax góðir vinir. En núna í haust voru þeir settir á sitthvora deildina. Voru þeir voða sárir fyrst en eru búnir að sætta sig við það núna því "við leikum okkur bara saman úti núna" er sagt á hverjum degi.
Í gær átti unglingurinn að hitta liðveisluna en um nóttina vaknaði hann upp og var eitthvað slappur. Kom í ljós að hann var með hita og lá hann nánast í allan gærdag í móki. Reyndar var hann mjög duglegur að drekka og taka inn lyfin sín sem mér fannst mjög gott. Var reyndar að stressa mig yfir öllum smá kippum sem komu í hann, hrædd um að nú væri að koma krampi en sem betur fer gerðist það ekki. En það er svo skrítið með hann að upp á síðkastið þegar hann hefur veikst er hann búin að hrista þetta af sér á tæpum sólarhring. Spurning hvort maður þurfi að tala við doksann hans um þetta. Að minnst kosti er þetta komið niður á blaðið sem ég ætla að fara með til hans næst. Unglingurinn er komin í bananastuð núna og fer sæll og kátur í skólan á morgun.
Þangað til næst. Farið vel með ykkur . Knús og kram
31.12.2007 | 15:47
Gamlársdagur.
Ég og litli prins vorum í fríi í dag og byrjuðum daginn á því að ná í unglinginn í skammtímavistunina. Mér leist nú ekki á það þegar ég keyrði upp að húsinu rúmlega 9:30 og það var nánast ekkert ljós í húsinu. Þegar við bönkuðum upp á kom í ljós að unglingurinn var ennþá sofandi. Þetta er algjört undur og stórmerki á okkar heimili því unglingurinn sefur vanalega aldrei lengur en til 8. Vona bara að hann gera þetta líka í fyrramálið.
Núna er allt af verða tilbúið fyrir fagnaðinn. Lærið að skríða inn í ofninn, drengirnir baðaðir og allt að smella saman. Mamma, pabbi, litla syss, mágurinn og sæta skvís frænka ætla að vera með okkur á áramótunum. Ég ætla að bjóða þeim upp á koníakslegið lambalæri með meðlæti og sósu sem gerð er úr mareneringunni og rjóma mmmmmmmmmmmmm gott. Mamma ætlar síðan að koma með hamborgarahrygg og bayonais skinku svo það verði örugglega nóg af öllu. Síðan er auðvitað snakkið, ostarnir og berin tilbúin í ísskápnum tilbúin að vera etinn. Mér finnst alltaf svo gaman þegar við erum mörg saman um áramótin. Örugglega af því að ég er alin upp við það að allir séu saman á áramótunum. Þegar ég var lítil og einnig þegar ég bjó hjá mömmu og pabba var það hefð að við vorum með ömmu og afa(þegar þau voru á lífi) og flestum systkinum mömmu á áramótunum. Þetta var rosamikið fjör og við skiptumst á að vera heima hjá hvort öðru. Ekkert smá mikið fjör. Eftir að ég og unnustinn byrjuðum að vera saman höfum við verið oftast með fjölskyldunni hans um áramótin. Tengdó, systkini, makar og afkomendur safnast saman og hafa gaman. Í þau ár sem við höfum verið saman höfum við verið ein áramót bara 3. Það var áramótin 2002-2003. Og þetta eru núna þriðju áramótin í röð sem við erum heima hjá okkur á áramótunum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög gott að vera bara heima hjá mér. Þá getur unglingurinn gert nánast það sem hann vill þar sem ég sit ekki í stressi yfir því að hann brjóti eitthvað hjá þeim sem við erum hjá á þeim degi. En þetta er bara ég.
Nóg af þessu rausi. Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og megi 2008 vera fyllt gleði og hamingju.
Knús og kram.
28.12.2007 | 16:40
Yndisleg jól
Jólin eru búin að vera alveg yndisleg hjá okkur fjölskyldunni. Mamma, pabbi, bróðir minn og sonur hans borðuðu vel af fiskinum sem ég bauð þeim upp á á Þorláksmessu og voru drengirnir 2 á þessu heimili mjög glaðir að fá þau í heimsókn. Á aðfangadag þurfti unnustinn að vinna fram á hádegi þannig að restin af fjölskyldunni tók því bara rólega og vorum á náttfötunum fram eftir morgni. Litli prins spurði nokkrum sinnum hvort það væri ekki leikskóli því honum fannst eitthvað skrýtið að fara ekki þangað (vanafastur ungur herramaður ). Síðan fóru auðvitað allir í jólabaðið og nutu þess að vera í rólegheitunum. Eftir að hafa borðað á sig gat var farið í pakkaflóðið sem beið eftir drengjunum undir jólatréinu. Fengu þeir margar fallegar gjafir og þökkum við kærlega fyrir þær. Litli prins var mest ánægður með jólagjöfina frá bróðir sínum en hann gaf honum Bósa ljósár. Unglingnum er alveg sama um gjafir og undi sér sæll og glaður með pakkaböndin og glotti af æsingnum í bróðir sínum. Bara gaman af þeim. Auðvitað fengum við hjónaleysin fullt af gjöfum og er ég mjög ánægð með þær allar, en þær gjafir sem mér finnst mest vænt um eru þessar þrjár
Unglingurinn gerði kertið og skálina og litli prins gerði dagatalið. Mér finnst alltaf svo gaman af gjöfunum sem börn gera sjálf.
Á jóladag fórum við í mat til mömmu og pabba. Ég fór með mitt hangikjöt með og síðan var boðið upp á hlaðborð. Systir mín, mágur og dóttir þeirra komu líka sem og litli púkinn hans bróðir míns. Ef ykkur langar að sjá mynd af matarborðinu endilega kíkið á bloggið hennar litlu syss (þið sem ekki vitið þá er það hún www.bryndisr.blog.is).
Núna er unglingurinn í aukavistun í sambýlinu og litli prins leikur sér af sjóræningjaskipinu sem hann fékk í jólagjöf frá foreldrunum. Reglulega heyri ég kallað ruplum og hænum (ekki ruplum og rænum ). Unglingurinn kemur síðan aftur heim á gamlársdagmorgun og er ég strax farin að hlakka til að fá hann heim.
Skjáumst vonandi fyrir áramót.
Knús og kram
23.12.2007 | 18:44
Er líða fer að jólum....
ég er alveg að vera komin í jólafílinginn. Bara eftir að pakka inn 2 gjöfum og þrífa baðherbergið. Bíð núna eftir að mamma, pabbi, lilli bró og sonur hans komi til okkar og fái saltfisk, kartöflur, hamsa og rúgbrauð í matinn. Ég er að spá í að fara að hafa þetta sem hefð. Gaman að fá alla saman og hvíla sig aðeins á jólastressinu. Ég og litli prins skreyttum jólatréið í morgun en unglingurinn hafði engan áhuga á því , vildi bara sitja og horfa á okkur stressa sig aðeins yfir þessu. Þetta var samt bara gaman. Mér líður svo vel að vera búin að skreyta allt. Reyndar gerði unnustinn grín af mér þegar það fattaðist að aðeins eitt herbergi í húsinu er ekki skreytt. Hann spurði mig hvort ég ætlaði vikilega ekki að skreyta í þvottahúsinu . Það er sem sagt skraut í öllum öðrum herbergjum hússins. Veit nú samt ekki hvort ég verð eins dugleg að þessu þegar við verðum búin að byggja. Stærra hús, meira skraut. Reyndar eru nú alltaf útsölur á jólaskrauti í Rúmfó rétt fyrir jólin svo það er alltaf hægt að bæta við .
Þar sem ég held að þetta verði mitt síðasta blogg fyrir jól vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að allir hafi það sem best um hátíðarnar.
Knús og kram
21.12.2007 | 23:44
Bara allt að verða tilbúið
Á bara eftir að pakka inn tveimur gjöfum, gera jólaísinn og þrífa og skreyta jólatréið. Mér finnst eiginlega allt búið þó þetta sé eftir. Komst í rosalegt jólastuð í dag þegar unglingurinn kom heim úr skammtímavistuninni. Finnst svo gott þegar við erum öll saman.
Reyndar komum við mörgu í verk á meðan unglingurinn var að heiman. Kláruðum nánast allar jólagjafirnar, keyptum jólamatinn og breyttum aðeins hér heimavið. Fórum með litla prins á jólaball og fannst honum það mikið fjör þó svo að hann hafi ekki viljað dansa. Spjallaði aðeins við jólasveinana og smakkaði á kræsingunum sem voru í boði.
Ætla bara að hafa þetta stutt núna. Skjáumst vonandi fyrir jól.
Knús og kram.
9.12.2007 | 23:09
Undirbúningur jóla
Við erum búin að vera á fullu að undirbúa jólin. Þrír fjölskyldumeðlimir komnir með jólaklippinguna og óvíst með þann fjórða hvort hann skelli sér í klippingu fyrir jólin. Á síðustu helgi tókum við okkur til og bökuðum piparkökurnar. Þvílíkt fjör sem það var. Unglingurinn var nú samt ekkert sérlega áhugasamur en lét sig þó hafa það að sitja í svolitla stund með okkur. Á meðan við vorum að skera út kökurnar kom vinur litla prins í heimsókn og skellti hann sér bara líka í bakstur og fannst þetta mikið fjör. Ætli þetta verði þá ekki framtíðin við verðum saman að skera út pipakökur ég, strákarnir og vinurinn. Ég hugsa að það geti bara verið mikið fjör.
Annars er búið að vera nóg að gera hjá mér. Fullt að gera í vinnunni sem og einkalífinu. Mér finnst alveg ótrúlegt hvernig allt kemur á sama tíma. Ég hef ekki farið út að skemmta mér í marga mánuði og síðan fór ég tvisvar út um helgina. Fyrst var hið árlega jólaglögg starfsmannafélagsins og síðan í gær í fertugsafmæli. Ég verð að viðurkenna að ég sá það að þetta verð ég að gera oftar. Hafði alveg rosalega gott af því að fara svona út og hugsa bara um að njóta mín. Annars er ég soddan heimapúki að mér líður alltaf best þar, hvort sem það er með fjölskyldunni eða góðra vina hópi eða bara ein á kvöldin þegar prinsarnir mínir tveir eru sofnaðir. Mér finnst þessi hraði og spenna í þjóðfélaginu alveg rosaleg. Allt þarf að hafa gerst í gær í síðasta lagi. Fólk þarf aðeins að slaka á og njóta augnabliksins því áður en við vitum af eru börnin flutt að heiman og allt sem maður ætlaði að gera með þeim svikin loforð. Skítt með fína bíla og súperhrein hús, tími með fjölskyldunni er það sem blífur. Fórum aðeins með gaurana í búðaleiðangur í dag og ég hugsaði bara af hverju er maður að þessu en ekki að njóta þess að vera heima og gera jóló. En síðan horfði maður á litla prins þegar við gengum inn í Holtagarða og hann sá uppblásið loftfar Íþróttaálfsins sá ég að það er stundum alveg þess virði að fara í svona ferðir þegar börnin manns sjá eitthvað sem þeim finnst gaman af. Það minnir mig á þegar unglingurinn sá Jónsa í fyrsta skipti án þess að það væri í sjónvarpi. Hann starði á hann og síðan byrjaði hann að roðna. Og brosið sem kom á hann VÁ. Maður sá alveg á svipnum á honum að hann var að hugsa hey hann er til í alvöru. Bara sætt. Hann er mjög hrifin af í svörtum fötum og reyndar líka á móti sól ef hann hlustar á íslenska tónlist. Síðan komumst við að því að honum finnst mjög gaman að hlusta á R.E.M. Get ekki annað sagt en að hann er klassa maður þegar kemur að tónlist (reyndar er hann algjör klassamaður yfir höfuð)
Læt fylgja með myndir af prinsunum mínum við bakstur.
Þú getur notað þetta form.
Ekkert smá einbeittur að fletja út.
Farið vel með ykkur í jólastressinu. Knús og kram.