16.10.2007 | 18:32
Ýmislegt
Í dag og í gær var afleysingabílstjóri sem náði í unglinginn. Hann var ekkert sérlega sáttur þegar hann sá að unglingurinn var með Manchester United tösku þar sem hann er gallharður Liverpoolmaður ( þ.e.a.s. bílstjórinn). Ég veit ekki hvað hann verður lengi að keyra þar sem hann er að leysa af á meðan vanalegur bílstjóri er lasinn en ég ætla að reyna að gera í því að vera annað hvort í einhverju merktu Manchester eða láta unglinginn vera í einhverju merktu Manchester. Púki, ha ég, stemmir ekki .
Núna er litli prins og vinur hans inn í herbergi hjá unglingnum og eru þeir þrír að horfa á Shaun the sheep. Þvílíku hlátrasköllinn sem heyrast annað slagið eru ekkert smá. Mér finnst svo gaman að hafa þessar elskur hjá mér og gaman að heyra hvað unglingurinn nýtur sín að vera með þá hjá sér. Annars erum við bara þrjú heima núna þar sem unnustinn fór vestur að laga vatnið í sumarbústaðnum með bróðir sínum. Það er eins gott að það sé í lagi þegar það er farið að kólna svona mikið.
Í næstu viku erum við að fara á fund hjá Þroskahjálp ásamt tveimur öðrum hjónum vegna sambýlismála sona okkar. Þannig er mál með vexti að við erum þrjár fjölskyldur saman sem viljum að synir okkar séu saman í sambýli. Þetta getur auðvitað orðið erfitt en við erum tilbúin að berjast fyrir þessu. Við fengum bréf í sumar og þar var okkur tilkynnt að drengirnir væru komnir á biðlista og gæti það tekið fimm ár eða lengur fyrir þá að fá inni á sambýli. Eftir lestur minn á bloggfærslu Korntopp bloggvinar míns verð ég að viðurkenna að ég er ekki alveg tilbúin til að hafa þá þrjá saman og bara einn starfsmann. Það myndi bara ekki ganga upp.
þangað til næst. Farið vel með ykkur. Knús og kram
14.10.2007 | 22:48
Frábært kvöld
Árshátíðin í gær var algjört æði. Skemmti mér allveg konunglega og maturinn to die for. Við byrjuðum kvöldið á því að bjóða nokkrum vinnufélögum unnustans og mökum þeirra í fyrirpartí. Eftir það skelltum við okkur á árshátíðina. Þegar við vorum búin að taka yfirhafnirnar af okkur var tekin mynd af öllum sem komu inn og því síðan varpað á skjá þar sem fordrykkirnir voru afgreiddir. Síðan var gengið til borðs. Björgvin Franz var veislustjóri og stóð hann sig alveg með príði. Hló ekkert smá mikið af honum. Maturinn var rosalega góður. Byrjaði á sjávarréttaforrét, svo var carpacio (eða hvernig það er nú skrifað) í millirétt, aðalrétturinn var lambalund með gratínkartöflum og einhverju gúmmulaði og endað á créme brulei og kókosís. mmmmmmmmmmmmmmmmm þetta var svo gott. Skemmtiatriðin voru mjög góð. Leone Tinganelli og Hera Björk sungu nokkur lög, hið árlega skaup sýnt og síðan voru skemmtiatriði með Björgvini inn á milli. Síðan endaði þetta allt með balli með Sniglabandinu. Ekkert smá gaman. Sá í commentunum í fyrri færslu að það var verið að rukka um mynd. Ég gleymdi að láta taka mynd af okkur en ef ég fæ afrit af myndinn sem var tekinn uppfrá þá skelli ég henni inn.
Í dag var því bara tekið rólega. Unnustinn fór að aðstoða vinahjón okkar að flytja, litli prins fór að leika sér við við sinn og ég og unglingurinn sátum og horfðum á snilldarleirmyndina Shaun the sheep eða eins og það er búið að íslenska heitið Hrúturinn Hreinn. Síðan skelltum við okkur í smá heimsókn til mömmu og sátum dágóða stund hjá henni. Vinahjón okkar komu síðan í mat og komu þau með rauðvinsflösku frá Moldavíu með sér. Mjög fínt vín. Passaði vel með lambalærinu. Svekkt að hafa ekki fengið uppskriftina af lærinu hjá henni systir minni fyrr. Hefði þá verið með nákvæmlega sama í matinn og hún . Verð að segja að þetta var góður endir á góðri helgi.
Knús og kram
13.10.2007 | 17:37
Spennan eykst
Nú styttist óðum í árshátíð. Búin að laga á mér hárið og setja upp andlitið. Ætla ekki að fara í kjólinn fyrr en ég er búin að ná í barnapíuna hana mömmu. Verð alveg að viðurkenna að ég er farin að hlakka mikið til. Síðasta árshátið hjá unustanum fór ekki vel hjá mér. Náði mér í einhverja umgangspest og þurfti að fara heim eftir forréttinn. Vona bara að ég nái að vera allavegana yfir skemmtiatriðin núna. Langar líka að vera á ballinu þar sem Sniglabandið á að skemmta.
Skjáumst hress á morgun.
11.10.2007 | 22:13
Fjör á næstu helgi
Núna um helgina verður árshátíð í vinnunni hjá unnustanum. Ég er farin að hlakka alveg rosalega mikið til. Keypti mér alveg æðislegan kjól úti og er núna að leita mér að skarti til að vera með. Ég fór í Smáralindina í dag sem er kannski ekki frásögum færandi en ég fann ekki neitt sem mér fannst passa við kjólin. Kjóllinn er í frekar klassískum/gamaldags stíl og mér finnst að ég þurfi annað hvort að vera með semelíusteina eða perlur við hann. Þar sem ég er nú að vinna við Laugaveginn er ég að spá í að nota hádegið á morgun í að kíkja eftir einhverju.
Unglingurinn kemur heim á morgun eftir vikudvölina. Ég verð alltaf svo spennt að hitta hann aftur. Veit ekki hvernig þetta verður þegar hann flytur að heima. Verð örugglega daglegur gestur hjá honum og fæ hann heim oft í mánuði. En það er nú ekki eins og hann fari að flytja að heiman á næstunni. Þegar við fórum á síðasta fund um þessi mál gáfu þau í skyn að þetta yrði í fyrsta lagi eftir 5 ár. Það kemur bara allt í ljós.
Litli prins dafnar alveg í íþróttaskólanum og spyr á hverjum degi hvort hann megi ekki fara í íþróttaskólan í dag. Þegar ég segi nei er alltaf spurt afhverju? En þegar ég segi já (sem er einu sinni í viku) heyrist í litlum prinsi YESSSS. Ætli ég verði ekki ein af þessum súpermömmum sem verða í því að sækja börn í æfingar. Eins og útlitið er núna býst ég alveg við því að hann verði í öllum íþróttum. En vonandi getur maður náð þessu niður í svona 1-2.
Mér finnst alltaf svolítið merkilegt að spá í þetta þar sem þetta er í raun í fyrsta skipti sem ég er að upplifa svona. Unglingurinn var bara í sínum eigin heim og fór reyndar 2x í viku í sjúkraþjálfun á þessum aldri. Maður er einhvernveginn samt að upplifa allt í fyrsta skipti. Það er bara gaman auðvitað en samt fer maður að hugsa um allt hitt. Á þessum aldri hafði ég næstum því verið búin að missa unglinginn minn, hann var alltaf á sjúkrahúsum, magar gleðistundir en líka margar sorgarstundir. En Pollýannan ég vil ekki hugsa út í sorgarstundirnar. Í hverju skýi er silfurþráður.
Farið vel með ykkur. Knús og kram.
9.10.2007 | 22:19
Æðisleg helgi
Ástæðan fyrir því að ég var í bloggfríi þangað til núna er sú að minn yndislegi unnusti gaf mér ferð til Manchester í afmælisgjöf.
Við fórum seinnpartinn á föstudeginum út og skelltum okkur á leik Manchester United gegn Wiggan. Þvílíkt og annað eins stuði hef ég varla kynnst. Vera á vellinum og nánast geta snert leikmennina, stemmingin í áhorfendunum og bara allt í kringum þetta. Og auðvitað spillti það ekki fyrir að öll mörkin sem voru skoruð voru á þeim vallarhelming sem ég sat við. Það er ekki spurning lengur um hvort maður fari aftur á leik heldur hvenær. Síðan á laugardagskvöldinu fórum við í leikhús og sáum leikrit sem heitir Private lives sem er alveg frábært. Í þessu leikhúsi setja þeir upp eitt verk sem þeir láta rúlla í mánuð. Á sunnudaginn var auðvitað kíkt aðeins í verslanir og keypt á okkur og strákalingana. Einnig kláraði ég u.þ.b. 85% af öllum jólagjöfunum. Ekkert smá ánægð að hafa gert það. Um kvöldið fórum við á Kantónískan veitingastað sem heitir Yang Sing og er rétt hjá hótelinu sem við gistum á. Og þvílíkt lostæti sem maturinn var þar. Við ákváðum að taka Sample menu sem er smakkprufur af matseðlinum. Við fengum að smakka af 10 réttum. Þið getið lesið matseðilinn hérna http://www.yang-sing.com/restaurant/menus.php?menuid=1 . Þar smakkaði ég í fyrsta skiptið strútakjöt og verð ég að viðurkenna að það var alveg rosalega gott. Eftir að við vorum búin að borða skelltum við okkur í bíó. Fórum á breska mynd sem heitir Run, fatboy, run og er um mann sem flýr frá vandamálum og klárar aldrei neitt sem hann byrjar á. Hún er alveg ótrúlega skemmtileg.
Í gær kláruðum við restina af því sem við ætluðum að versla og síðan fórum við í skoðunarferð um Old Trafford. Og vá hvað það var gaman. Ótrúlegt að sjá þetta allt saman. Gaman að sjá hvað Ole Gunnar Solskjæer er vinsæll hjá þeim og hvað þeir bera mikla virðingu fyrir honum. Leiðsögumaðurinn sagði alltaf þó hann sé hættur að spila er hann ekki hættur hjá okkur. Það sem mér fannst einna merkilegast er hversu látlausir búiningsklefarnir eru. Það er nánast meiri íburðir í sturtuklefunum í sundlauginni á Grundarfirði heldur en þarna. A.m.k. í búiningsklefunum. Reyndar var sturtuaðstaðan mjög flott. Eftir skoðunarferðina tókum við lestina aftur niður í bæ og röltum aðeins um áður en við fórum á voða kósý veitingastað sem heitir Bella Italia og er rétt við göngugötuna. Það er alltaf rosalega nice að koma þangað. Fínn matur og rólegt andrúmsloft. Þó svo að maður sé löngu búin að borða þá er ekkert verið að reka á eftir okkur.
Við komum síðan heim seint í gærkvöldi og verð ég nú alveg að viðurkenna að maður var nú frekar þreyttur þegar maður vaknaði í morgun. Litli prins var voða ánægður að fá okkur aftur heim þó svo að hann væri búin að vera í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa. Reyndar vildi hann bara að afi og amma kæmu að sækja hann í leikskólan í dag en við máttum ekki fara út aftur.
Þangað til á morgun.
knús og kram
4.10.2007 | 22:50
Námskeiðsfíkillinn ég
Í vinnunni hjá mér var boðið upp á þrjú námskeið sem tengdust vinnunni. Mér fannst þau öll spennandi og langaði að skrá mig á þau öll en taldi, þar sem ég var ekki búin að vinna í eitt ár að ég fengi það ekki í gegn. Síðan kom deildastjórinn yfir minni deild og hvatti okkur til þess að skrá okkur í öll þau námskeið sem voru í boði. Auðvitað skráði ég mig í þau öll og byrjaði á fyrsta námskeiðinu síðasta mánudag og klára það á morgun. Þetta er námskeið um liðsheild. Það er alveg ótrúlegt hvað maður lærir mikið á þessu. Og fyndna við þetta allt saman er að við vorum látin taka persónuleikapróf og þau voru nánast nákvæmlega eins og ég tel mig vera. Hlédræg, læt aðra ganga fyrir, tel skoðanir aðra mikilvægari en mínar eigin og svo mætti lengi telja. Eitt sem kom fram í þessu öllu var að ég á að vera svokölluð "pera" þ.e. ég á að vera með hugmyndir á hverri sekúndu nánast og að ég væri liðsmaður. Ég var fyrst ekkert sammála þessu fyrr en við fórum í næsta verkefni. Þar vorum við beðin um að skrifa niður spurningu sem átta að byrja hversu margir hér inni .. . Sú sem er með námskeiðið var varla búin að klára setninguna þegar ég var komin með 5 spurningar en mátti bara velja eina. Þá gall við í vinkonu minni og samstarfskonu. Hva er peran komin upp hjá þér. Það hlógu allir að þessu og þá fattaði ég það að ég er stútfull af hugmyndum en ég kem þeim bara aldrei á blað því ég er búin að sjá nýjar lausnir og nýjar leiðir eftir nokkrar mínútur. Eins og t.d. er mig búið að langa að mála einn vegg í stofunni hjá mér en ég er ekki búin að því að ég er alltaf að skipta um skoðun hvernig ég vil mála hann og hvort ég eigi að setja spegill fyrir ofan skenkinn eða færa málverkið sem er á veggnum á móti. En síðan gæti ég alveg fært sjónvarpið þangað og borðstofuborðið innar í stofuna, Nei ég segi bara svona
Næsta námskeið í nóvember og síðasta í desember. Bíð bara spennt og verð að viðurkenna að nú langar mig að fara að læra meira. Kannski lögfræði, félagsráðgjafann eða..... peran að drepa mig
Að öllum líkindum mun ég ekkert blogga aftur fyrr en á þriðjudaginn. Farið þið vel með ykkur og knúsið ykkar nánustu.
knús og kram
2.10.2007 | 20:20
Ég er svo hamingjusöm
Fyrir nokkrum vikum síðan ákvað ég að prófa að sækja um hjá vildabörnum fyrir unglinginn minn. Þar sem hann verður 16 ára í haust er þetta í síðasta skipti sem við getum sótt um.
Í dag fékk ég alveg frábært símtal. Kona frá Vildarbörnum hringdi í mig og tilkynnti mér það að unglingurinn hafi verið valin sem eitt af vildabörnunum sem fá styrk fyrsta vetradag. Ég verð nú að viðurkenna að ég er eiginlega ekki ennþá að ná þessu. Þetta er svo óraunverulegt eitthvað. Stóri strákurinn minn er að fara til útlanda í fyrsta skipti á ævinni. Bara frábært. Mér skildist á henni að við gætum valið hvert við förum öll fjölskyldan saman. Ég sé hann alveg fyrir mér í flugvélinni hlægjandi af því að það kemur kitl í magann við flugtak og lendingu. Bara snilld.
28.9.2007 | 21:45
Í dag eru....
þrjú ár síðan Rooney skoraði sína fyrstu þrennu fyrir Manchester United í evrópukeppninni og auðvitað þriggja ára afmælisdagur litla prins.
Mér finnst alveg ótrúlegt að þessi litli gullmoli sé orðin þriggja ára og samt finnst manni eins og hann hafi alltaf verið hjá okkur. Ég fór að hugsa það í morgun þegar ég vaknaði að akkúrat á sama tíma fyrir þremur árum var ég að færa mig niður á sængurkvennagang með litla prins í vöggu fyrir framan mig. Rétt tæpar 12 merkur og 48,5 cm. Fæddist í sigurkufli, dökkhærður og dökkeygður. Fullkominn. Verð samt að viðurkenna að ég beið fyrsta sólahringinn með hnút í maganum vegna þess að bróðir hans var í lagi fyrstu tímana eftir fæðingu. En þessi kvíði var óþarfur, hann er hraustur og duglegur lítill prins.
Þegar hann vaknaði í morgun var aðalmálið að fara með ís til allra vinanna í leikskólanum og fá kórónu. Pakkarnir voru geymdir þangað til við komum aftur heim. Og þvílík gleði. Er búin að vera á fullu að leika sér í bílahúsinu frá foreldrunum og af playmobilinu sem bróðir hans gaf sér. Enda var það þreytt lítið gull sem sofnaði nánast um leið og hann lagðist á koddann.
26.9.2007 | 21:19
Hálfgerð nostalgía
Litli prins er mjög hrifin af því að láta lesa fyrir sig. Núna erum við að lesa bækurnar um köttinn Tjúlla. Nostalgían við að lesa Tjúlla er sú að mér finnst ég orðin 17 -18 ára aftur og sitja og lesa fyrir Rósant bróðir. Þetta voru uppáhaldisbækur hans á tímabili og ég las þær oft fyrir hann.
Samt finnst manni tíminn líða voða hratt. Litli prins alveg að verða þriggja ára og strax er dyrabjallan farin að klingja og krakkar að biðja hann um að koma að leika. Mér finnst svo stutt síðan að hann var nýfæddur en nú er hann nánast farin að gera allt sjálfur. Ég bauðst til að opna fyrir hann jógúrt í gær og þá heyrðist bara: nei nei mamma mín ég geri þetta bara sjálfur. Áður en ég veit af verð ég farin að passa börnin hans. Vó ég fékk hálfgert sjokk að segja þetta. Nei hann verður sko litli kallinn minn miklu lengur.
Farið vel með ykkur í vonda veðrinu.
24.9.2007 | 22:08
Maí/ júní 1993
Þessir mánuðir voru þeir einna verstu sem ég hef upplifað.
Var að spá í þessu í dag þegar ég var að aðstoða unglinginn minn að fyrir rúmum 15 árum var honum vart hugað líf. Á einu augabragði var lífi mínu umturnað og sólargeislinn minn nánast slokknaður. Í tvo daga sat sjúkrahúspresturinn með mér og spurði mig út í lífið og tilveruna. Ég vildi ekki horfa á þá staðreind að hann væri að fara og talaði alltaf um líf mitt með honum. Og auðvitað hafði mömmuhjartað rétt fyrir sér. Læknarnir höfðu komið til okkar og sagt okkur frá því að lifrin væri búin að gefa sig og þar sem hann er eins og hann er þá væri hann ekki æskilegur kandidat fyrir lifraígræðslu. Svo ég skrifi það orðrétt " Þó svo að það væri 100% samsvörun væri fyrst athugað hvort einhver annar gæti notað lifrina, þið hafið þetta bara bak við eyrað". Þetta sýnir bara hvað einstöku börnin okkar eru lítils virði í þessum heimi. Tveimur dögum seinna kom öll hersinginn inn í litla herbergið sem við vorum í og ég verð nú að viðurkenna að ég hélt að nú væru þeir að fara að segja mér að ég yrði að ákveða hvenær tækin yrðu tekin úr sambandi. En neeei það var sko ekki það sem þeir vildu segja heldur var sagt við okkur " Það sem við sögðum ykkur að hafa bak við eyrað. Strokið það út, drengurinn er að koma til baka. Lifragildinn fara lækkandi". Ef Sirrý myndi spyrja mig væri þetta að öllum líkindum sá örlagadagur sem ég myndi velja.
Ástæðan fyrir þessari lifrabilun hans var eitt af krampalyfjunum sem hann var að taka inn. Þetta er mjög sjaldgæf aukaverkun og er hann einn af þeim fáu sem hafa fengið þessa aukaverkun. Ef ég á að segja eins og er þá vildi ég óska þess að hann hafi ekki verið einn af þessum sem hafa fengið þessa aukaverkun.
Að horfa á unglinginn minn í dag og hugsa um þetta fær mig bara til að tárast. Allar þær framfarir sem hann hefur sýnt og öll sú gleði sem hann hefur gefið mér voru næstum orðnar að engu.
Knúsið ykkar nánustu og þökkum fyrir hvern einasta dag sem við eigum með þeim. Þó þau geta verið erfið þá eru þau hjá okkur.
Knús til ykkar allra.